Eflum lýðræðið - Konur í sveitarstjórn

Jafnréttisstofa og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafa gefið út bæklinginn Eflum LÝÐRÆÐIÐ - KONUR í sveitarstjórn sem ætlað er að hvetja konur til að bjóða sig fram til sveitarstjórnarstarfa. Í bæklingnum hvetja sveitarstjórnarkonur úr öllum flokkum og öllum kjördæmum konur til að gefa kost á sér til sveitarstjórnarstarfa og hafa þannig áhrif á sitt nærumhverfi.

Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði starfshóp á síðasta ári sem átti að leggja fram tillögur um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna í sveitarstjórnum við sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra 20. október síðastliðinn þar sem meðal annars er lagt til að ráðuneytið skipuleggi hvatningarátak og boði til samráðs við stjórnmálaflokka um aukinn hlut kvenna á framboðslistum
Ein af tillögum starfshópsins var útgáfa hvatningarbæklingsins sem nú er að koma út á vegum Jafnréttisstofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Bæklingurinn er kominn í dreifingu meðal annars til allra stjórnmálaflokka.

Þrátt fyrir að hlutfall kvenna í sveitarstjórnum hafi aukist mikið síðustu áratugina hallar enn verulega á konur. Við sveitarstjórnarkosningarnar 2006 voru kjörnar 189 konur í sveitarstjórnir, eða 36% og 340 karlar eða 64%. Í fimm sveitarfélögum var engin kona kjörin í sveitarstjórn. Konur voru hins vegar í meirihluta í 11 sveitarstjórnum eftir kosningarnar, en höfðu verið í meirihluta í 10 sveitarfélögum á fyrra kjörtímabili.

Samgönguráðherra telur æskilegt að unnið verði að því markmiði að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum verði sem næst 50% á landsvísu við sveitarstjórnarkosningarnar 2010 og að engin sveitarstjórn verði einvörðungu skipuð öðru hvoru kyninu.

Bæklinginn má nálgast hér