Ekki marktækur kynbundinn launamunur hjá Akureyrarbæ

Samkvæmt könnun, sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Akureyrarbæ, er ekki marktækur kynbundinn launamunur hjá starfsmönnum bæjarins, þegar tekið hefur verið tillit til starfs, starfssviðs, aldurs, starfsaldurs og vinnutíma.
Í sambærilegri könnun, sem gerð var árið 1998, kom í ljós að konur voru með 6% lægri dagvinnulaun en karlar og 8% lægri heildarlaun. Eftir þá könnun var launakerfi bæjarins tekið til endurskoðunar og var settur á fót vinnuhópur til þess að skoða sérstaklega yfirvinnu og aðrar aukagreiðslur.

Árangurinn af því starfi er sá að í dag eru dagvinnulaun karla og kvenna hjá Akureyrarbæ mjög svipuð. Meðaldagvinnulaun kvenna eru 208 þúsund krónur á mánuði, en meðaldagvinnulaun karla 212 þúsund. Karlar hafa að meðaltali hærri heildarlaun en konur, eða 332 þúsund krónur á mánuði, en meðalheildarlaun kvenna eru 274 þúsund krónur á mánuði.

Þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, starfsaldurs, starfs, starfssviðs og vinnutíma er ekki marktækur kynbundinn launamunur hjá starfsmönnum bæjarins, hvorki á dagvinnulaunum né heildarlaunum. Konur eru nærri 79% starfsmanna Akureyrarbæjar en karlar rúmlega 21%. Þá eru konur um 63% af 80 helstu stjórnendum bæjarins.

Niðurstöður launakönnunarinnar voru kynntar á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær, en áður hafði verið rætt um niðurstöðurnar á málþingi sem Jafnréttisstofa hélt um kynbundinn launamun í desember sl.