Engin kona lokið sveinsprófi í stálsmíði

Ágústa Sveinsdóttir og Ólafur Sveinn Jóhannesson starfsmenn Tækniskóla Íslands heimsóttu Akureyri í gær og kynntu verkefnið #Kvennastarf á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri. Í máli þeirra kom fram að 32.641 karlar hafa lokið sveinsprófi í löggildri iðngrein á Íslandi eða 84%. Konur sem lokið hafa sama prófi eru 5.151 eða 16%. Einungis 4 konur hafa lokið sveinsprófi í pípulögnum og enn í dag hefur engin kona lokið sveinspróf í stálsmíði. Frekari upplýsingar og áhugaverð myndbönd sem taka á kynbundnu náms- og starfsval má finna á slóðinni www.kvennastarf.is

Erindið má finna á vefvarpi Háskólans á Akureyri á slóðinni http://www.unak.is/vefvarp

Ágústa og Ólafur notuðu ferðina og heimsóttu m.a. Slippinn en þar hallar mjög á konur í starfsmannahópnum. Einnig litu þau við í Oddeyrarskóla og spjölluðu við nemendur í 10. bekk um hvernig kynbundnar staðalmyndir takmarka oft val okkar og frelsi. Ýmsar hugmyndir voru reifaðar um hvernig fjölga mætti stelpum í iðn- og verkgreinum. Bent var á mikilvægi þess að skóli og atvinnulíf væru í góðu samstarfi og að nemendum á öllum skólastigum ættu þess kost að kynnast ólíkum störfum.

Heimsókn Ágústu og Ólafs var liður í verkefninu Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir sem fékk styrk úr Jafnréttissjóði Íslands sl. sumar. Markmið verkefnisins er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla, sbr. 4. gr. jafnréttislaga. Verkefnið er samstarfsverkefni skóla, vinnustaða, fagfélaga, stéttarfélaga og annarra sem láta sig jafnréttismál varða. Jafnréttisstofa heldur utan um verkefnið og sinnir eftirfylgni, fræðslu og ráðgjöf við þátttakendur.