Er kynjum gert jafn hátt undir höfði í námsbókum?

Allt frá 1976 hefur verið ólöglegt að hanna og nota kennsluefni sem mismunar kynjunum á einhvern hátt, en mjög lítil umræða hefur verið um hvort og hvernig hefur verið fylgst með því að þetta lagaákvæði sé virt og hvort eldra kennsluefni er tekið til mats að þessu leyti og þá hvernig.

Í vetur sendi Jafnréttisstofa mennta-og menningarmálaráðuneytinu bréf þar sem ráðuneytið var minnt á eftirlitsskyldu þess varðandi útgáfu námsbóka skv. 23. grein jafnréttislaga.Tilefni bréfsins var útgáfa nýlegra námsbóka í samfélagsfræði sem endurspegla mjög karllæga sýn á sögu Íslendinga þar sem kvenna er varla getið hvað þá að einhverjar séu nafngreindar. Þegar fleiri námsbækur voru skoðaðar kom í ljós að umfjöllun í samfélagsfræði viðheldur hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna, þar sem karlar eru virkir gerendur í samfélaginu á meðan konur eru lítt sýnilegar og bundnar við heimilið.

Þessari sýn á hlutverk kynjanna er mjög einhæf og áberandi þrátt fyrir aukna jafnréttisvitund og þrátt fyrir rannsóknir á námsefni með tilliti til birtingamynda og fjölda kvenna í námsefni er enn heilmikil slagsíða í gangi.

Jafnréttisstofa hefur ráðið Kristínu Lindu Jónsdóttur mastersnema í sálfræði í sumarstarf en hún mun gera úttekt á námsbókum í samfélagsfræði á miðstigi grunnskóla út frá birtingamyndum og orðræðu um stúlkur og drengi, karla og konur. Í kjölfar úttektarinnar verður gerð skýrsla um niðurstöðurnar, ætluð yfirvöldum skólamála, kennurum og öðrum sem áhuga hafa.