Eru kvótar og sértækar aðgerðir aumingjahjálp fyrir konur?

Jafnréttisstofa og Háskólinn á Akureyri boða til fyrsta jafnréttistorgs vetrarins miðvikudaginn 8. október kl. 12 á hádegi. Þorgerður Einarsdóttir, doktor í félagsfræði og dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands, fjallar um kynjakvóta og sértækar aðgerðir undir yfirskriftinni: „Eru kvótar og sértækar aðgerðir aumingjahjálp fyrir konur?“ Í júlí 2008 birti nefnd Sameinuðu þjóðanna tilmæli til íslenskra stjórnvalda í jafnréttismálum, en Ísland hefur undirritað alþjóðasamning SÞ um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Nefndin lýsir vonbrigðum með að Ísland hafi ekki gripið til sérstakra tímabundinna aðgerða til að bæta stöðu kvenna. Á sama tíma og SÞ hvetur til slíkra aðgerða ríkir mikil tortryggni gagnvart þeim hér á landi og umræðan líður fyrir hugtakarugling og þekkingarleysi.

Í fyrirlestrinum verður ljósi varpað á lykilhugtök eins og „sértækar aðgerðir“, „jákvæð mismunun“ og „kvótar“. Fjallað verður um forsendur þessarra hugtaka og tengsl þeirra við höfðatölujafnrétti (e. numerical representation) og efnislegt jafnrétti (e. substantial representation). Fyrirlestur Þorgerðar fer fram í stofu L201 í Sólborg v/Norðurslóð.