Félagasamtök fagna samþykkt vændisfrumvarps

Kvenréttindafélag Íslands, Femínistafélag Íslands og Zontasamband Íslands hafa sent frá sér ályktanir þar sem félögin fagna því að á Alþingi hafi verið samþykkt lög sem gera kaup á vændi refsiverð. Leggja félögin áherslu á það að vændi sé ein tegund kynferðislegs ofbeldis og að með lagasetningunni hafi verið stigið mikilvægt skref í jafnréttismálum á Íslandi. Í tilkynningu stjórnar Kvenréttindafélags Íslands segir að áralöng barátta kvennasamtaka á Íslandi hafi borið árangur og því beri að fagna. Jafnframt fagnar félagið því að Ísland skuli vera þriðja landið í heiminum til að setja slík lög og segir að landið skipi sér þannig í framlínu ríkja sem taka kvenfrelsi og kvenréttindi alvarlega.

Femínistafélag Íslands segir í sinni ályktun að félagið fagni því að Ísland skuli feta í fótspor Svía og Norðmanna með því að gera kaup á vændi refsivert. Vændi sé ein tegund kynferðisofbeldis og lagasetning sé mikilvægur þáttur í að sporna við því.

Landsfundur Zontasambands Íslands haldinn á Akureyri 18. apríl sl. fagnaði lagasetningunni og sagði að með henni væru send þau mikilvægu skilaboð að ekki sé ásættanlegt að kaupa aðgang að líkama fólks og nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi. Landsfundurinn taldi mikilvægt skref hafa verið stigið í jafnréttisbaráttu á Íslandi.