Félagsmálaráðherra heimsækir Jafnréttisstofu

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heimsótti Jafnréttisstofu í morgun. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri, og Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, mættu með Jóhönnu. Þetta var fyrsta heimsókn Jóhönnu á Jafnréttisstofu eftir að hún tók við sem félagsmálaráðherra.
Jóhanna notaði tækifærið til þess að þakka Margréti Maríu Sigurðardóttur, fráfarandi framkvæmdastjóra, fyrir störf sín hjá Jafnréttisstofu. Um leið var Ingi Valur Jóhannsson, settur framkvæmdastjóri, boðinn velkominn til starfa á Jafnréttisstofu. Nú starfa þrjár konur og þrír karlar á Jafnréttisstofu, en þetta er í fyrsta skipti sem jafnt kynjahlutfall er á Jafnréttisstofu.

Starfsfólk stofunnar kynnti helstu verkefni hennar fyrir ráðherra og föruneyti. Ýmis mál voru rædd, enda hefur ráðherra bent á nauðsyn þess að leggja mikla áherslu á jafnréttismál á þessu kjörtímabili og sagðist hún vonast til þess að eiga gott samstarf við Jafnréttisstofu.


Ragnhildur, Margrét María, Ingi Valur og Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.