Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð samþykkt í ríkisstjórn

Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð var samþykkt í ríkisstjórn sl. föstudag. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur haft forystu um gerð áætlunarinnar í samráði við ráðherra jafnréttismála.

Áætlunin byggist á lögum um opinber fjármál. Henni er ætlað að leiða fram breytingar í jafnréttisátt en hingað til hefur kynjuð fjárlagagerð á Íslandi að mestu verið fólgin í sérstökum verkefnum. Markmiðið nú er að tengja kynjaða fjárlagagerð við alla þætti fjárlagagerðar. Greining á kynjaáhrifum fjárlaga hér á landi sýnir að ákvarðanir sem í fyrstu virðast kynhlutlausar reynast ekki vera það og hafa þær varpað frekara ljósi á ójafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Mikilvægt er jafnframt að dýpka greiningar með því að horfa til margþættrar mismununar og skoða kynjaáhrif með tilliti til þátta eins og fötlunar, uppruna, kynvitundar og aldurs, svo dæmi séu tekin.

Nánari upplýsingar er að finna í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins.