Fjölmenn kvennasöguganga á Akureyri

Fjölmennt var í fyrstu kvennasögugöngu um Oddeyrina á Akureyri þann 19. júní sl. en hátt í 200 manns hófu gönguna frá Ráðhústorgi. Margir einstaklingar komu að göngunni í ár aðrir en leiðsögumaðurinn Örn Ingi Gíslason og leikkonan Saga Jónsdóttir sem fjallaði á skemmtilegan og upplýsandi hátt um Vilhelmínu Lever sem kaus fyrst kvenna til sveitarstjórnar á Íslandi fyrir 140 árum. Þátttakendur í göngunni mættu ýmsum leiknum karakterum á götum eyrarinnar en ungt fólk úr verkefninu „Skapandi sumarstörf“ hjá Akureyrarbæ setti sig í stellingar íbúa á eyrinni. Eigendur fornbíla keyrðu um eyrina með farþega frá liðnum tíma.Saga kvenna á Oddeyri var tengd við nútímann þegar slökkviliðskonur og lögreglukonur komu til liðs við gönguna og í lok hennar leiddu lögreglukonurnar göngugesti að Eiðsvelli þar sem Íslandsmeistarar kvenna ÞÓR/KA í fótbolta tóku á móti þeim en knattspyrnufélagið Þór var stofnað á Oddeyri.