Fjölmenni í ljósagöngu gegn kynbundu ofbeldi

Mikið var um að vera á Akureyri í gær við upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Fjölmenni var í ljósagöngu sem gengin var frá Akureyrarkirkju niður að Ráðhústorgi þar sem göngufólk myndaði friðarhring. Að lokum var boðið í bíó á kvikmyndina Girl rising. Í myndinni er skyggnst inn í líf níu stúlkna sem eiga það sameiginlegt að búa við ofbeldi og fátækt. Myndin sýnir hvernig menntun getur rofið vítahring ofbeldis og fátæktar.
Það var Mjólkursamlagið á Akureyri, Soroptismaklúbbur Akureyrar,  Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn hyrna, KvikYndi félag kvikmyndaáhugafólks á Akureyri og Sambíóin sem buðu í bíó. Aðgangur var ókeypis en tekið var við frjálsum framlögum til styrktar Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Erlendar konur á Akureyri sýndu stuðning sinn í verki og voru með kökusölu í anddyrinu bíósins til styrktar Aflinu.




 
Í ár er Aflið í forgrunni 16 daga átaksins á Akureyri. Aflið var stofnað árið 2002 og hefur verið bakhjarl fyrir einstaklinga á Norðurlandi sem orðið hafa fyrir kynferðis- og eða heimilisofbeldi. 
Síðustu ár hefur rekstur samtakanna verið þungur og nú ríkir brýn þörf á auknum stuðningi. Starfsemi Aflsins fer að mestu fram í sjálfboðavinnu. 


--
Ljósmyndir: Verkmenntaskólinn á Akureyri