Fjölmiðlaumfjöllun og kynferðisbrot

Á opnum fundi Jafnréttisstofu, sem haldinn var í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi, hélt Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans fyrirlestur um mörk fjölmiðla í tengslum við fréttaflutning af kynferðisbrotum. Þórunn ræddi nokkur nýleg dæmi um slíka umfjöllun og spurði hvernig fréttaflutningur stæðist kröfur sem settar eru fram í siðareglum blaðamanna. 
Þórunn benti á að á undanförnum árum hafi orðið mikil vakning í samfélaginu jafnhliða aukinni umfjöllun fjölmiðla um kynferðisbrot. Vísbending um aukninguna mætti sjá í tölum frá Credit Info. Tölurnar sýna að fyrir tíu árum kom orðið kynferðisbrot fram í 261 frétt en á þessu ári hafi þegar verið sagðar 745 fréttir sem innihalda sama orð.

Þórunn fjallaði um margvísleg einkenni umræðunnar og lagði áherslu á mikilvægi þess að ná jafnvægi í þeirri umfjöllun sem skapast um fréttaflutning. Í opnum umræðum eftir fyrirlesturinn kom fram gagnrýni á áhrif markaðssjónarmiða og spurt hvernig slík sjónarmið hefðu áhrif á gæði frétta og vinnubrögð fréttamanna. Þá kom einnig fram að huga þurfi sérstaklega að brotaþolum, bæði í almennri umræðu og við vinnslu frétta.