Fjölsótt jafnréttisþing

Hátt í fimm hundruð manns eru skráð á jafnréttisþing, sem hófst á Hótel Nordica í morgun. Félags- og tryggingamálaráðherra boðaði til þingsins í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kynjakvótar, bann við kaupum á vændi og lög um hlutfall kynjanna í stjórnum fyrirtækja er á meðal þess sem rætt hefur verið þinginu.Á jafnréttisþinginu er fjallað um fjölmargar hliðar jafnréttisbaráttunnar, svo sem launajafnrétti kynjanna, kynbundið ofbeldi, jafnrétti í atvinnulífi, karla og jafnrétti og jafnréttisstarf í skólum. Auk þess eru drög að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum kynnt á þinginu, en tilgangur þess er meðal annars að gefa almenningi og fulltrúum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka kost á að skila inn hugmyndum og ábendingum vegna framkvæmdaáætlunarinnar.

Í ávarpi sínu sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, að hún hallaðist æ meira að notkun kynjakvóta til þess að uppfylla ákvæði stjórnarskrár um jafnrétti kynjanna. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, talaði meðal annars fyrir banni við kaupum á vændi og mælti með því að farin yrði hin svokallaða austurríska leið, sem felst í því að heimilt sé að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum þegar um ofbeldi í nánum samböndum er að ræða.

Þá vakti tillaga Margrétar Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra og formanns Félags kvenna í atvinnurekstri, góð viðbrögð fundargesta, en hún tók þátt í umræðum um jafnrétti til framtíðar. Hún lagði til að viðskiptalífið fengi tvö ár til þess að ná hlutfalli kvenna í stjórnum fyrirtækja í ásættanlegt horf, en að öðrum kosti yrðu sett lög um hlutfall kynjanna í stjórnum. Jafnréttisþinginu lýkur kl. 17, en dagskrá þess má sjá hér.