Fléttum saman þræðina-Kyn og opinber stjórnsýsla

Þann 22. nóvember býður Jafnréttisstofa til ráðstefnu um kynjasamþættingu undir yfirskriftinni Fléttum saman þræðina-Kyn og opinber stjórnsýsla. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Reetta Siukola sem er einn helsti sérfræðingur Finnlands í innleiðingu kynjasamþættingar. Hún mun fjalla um reynslu Finna af því að taka upp kynjasamþættingu í erindi sínu Gender mainstreaming in Finland - Good practices, experiences and lessons learned.

Reetta Siukola er stjórnmálafræðingur og yfirmaður skrifstofu um málefni kynjajafnréttis í finnska félag- og heilbrigðisráðuneytinu. Verkefni deildarinnar er meðal annars að samhæfa og þróa samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í opinbera stjórnsýslu. Reetta hefur viðtæka reynslu af kynjasamþættingarstarfi en hún hefur verið verkefnastjóri við innleiðingu aðferðarinnar frá árinu 2007 þegar verkefnið „Kynjagleraugun“ var sett á fót.

Megið markmið verkefnisins var að koma af stað og vinna með vinnuhóp að innleiðingu kynjasamþættingar í ráðuneytunum. Til að ná fram þessu markmiði voru haldin námskeið og reglulegir fundir þar sem rætt var hvernig kynjasjónarmiðin koma inn í gerð frumvarpa og fjárlaga við skipulagningu verkefna og við mat á árangri þeirra.

Í starfi sínu hefur Reetta haft umsjón með kennslu og þjálfun yfirstjórnar ráðuneytanna og annars starfsfólks við innleiðingu kynjaþættingar en auk þess hefur hún þróað kennslu, safnað upplýsingum og gefið út handbók. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu þess: http://www.stm.fi/en/gender_equality/gender_glasses

Auk Reette munu Sigríður Indriðadóttir, starfsmannastjóri Mosfellsbæjar, Aðalsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Byggðastofnunar, Þórdís Sigurðardóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnun Íslands auk fulltrúa Reykjavíkurborgar fjalla um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í starfsemi hina ólíku stofnanna og sveitarfélaga.