Framhaldsskólar skila jafnréttis- og framkvæmdaáætlunum

Síðastliðið haust kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá 28 íslenskum framhaldskólum en samkvæmt jafnréttislögum ber vinnustöðum þar sem fleiri en 25 starfsmenn starfa að setja fram jafnréttis- og framkvæmdaáætlun um hvernig stjórnendur ætla að stuðla að jafnrétti kynjanna hvað varðar, laun, ráðningar, sveigjanleika, tækifæri til endurmenntunar og kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
Menntastofnunum ber auk þess að sýna fram á hvernig þær framfylgja lagaskyldu sinni hvað varðar jafnréttisfræðslu en skv. 23. gr. jafnréttislaga skulu nemendur á öllum skólastigum hljóta fræðslu um jafnréttismál. Þeir 7 framhaldsskólar sem ekki skila inn jafnréttisáætlun vegna smæðar sinnar verða samt sem áður að skila inn greinargerð með upplýsingum um jafnréttisfræðslu innan skólans.


Flestir framhaldsskólar hafa nú skilað Jafnréttisstofu jafnréttis- og framkvæmdaáætlun.  Áætlanirnar eru af ýmsum toga en eftir leiðsögn og yfirlestur starfsfólks Jafnréttisstofu hafa flestar þeirra verið samþykktar. Áætlanir framhaldsskólanna eru aðgengilegar á heimasíðum þeirra.