Fréttatilkynning frá Jafnréttisráði

Jafnréttisráð fagnar nýrri aðgerðaáætlun gegn mansali, stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn og tilkomu Jafnréttisvakarinnar í fréttatilkynningu sinni. Einnig minnir ráðið á mikilvægi þess að stjórnvöld haldi vöku sinni og minnir á mikilvægi þess að skipa bæði karla og konur í nefndir og ráð á vegum ríkisins. Ályktunin er hér birt í heild.


Fréttatilkynning frá Jafnréttisráði

Jafnréttisráð lýsir ánægju yfir stórum tíðindum á sviði jafnréttismála. Fyrst ber að nefna nýsamþykkta aðgerðaáætlun gegn mansali sem ætti að nýtast sem kærkomið verkfæri í baráttunni gegn mansali. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að fyrirliggjandi frumvörp um bann á kaupum á vændi og afnám undarþáguákvæðis á banni á nektarsýningum í lögum um skemmtistaði nr. 85/2007 verði samþykkt. Jafnréttisráð treystir þeim orðum félagsmálaráðherra að frumvörpin verði afgreidd á yfirstandandi þingi og skorar á alla þingmenn að samþykkja frumvörpin.

Önnur stórtíðindi er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn, sem felst í því að kynjasjónarmið skuli vera eitt af leiðarljósunum við hvers kyns hagstjórn og fjárlagagerð. Kynjuð hagstjórn er sérlega mikilvæg á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga og óvissu til þess að tryggja jafnrétti í raun.

Enn annað nýmæli sem fagna ber er Jafnréttisvaktin sem ætlað er að fylgjast með áhrifum efnahagsástandsins á stöðu kynjanna, safna upplýsingum frá öðrum þjóðum með svipaða reynslu og vera til ráðgjafar um skipulagningu aðgerða og áætlana vegna afleiðinga efnahagsástandsins.

Jafnréttisráð vill þó brýna stjórnvöld um að halda ætíð vöku sinni. Það er algjörlega á skjön við anda jafnréttislaga að í nýskipaðri stjórn Seðlabanka Íslands eru 5 karlar og 2 konur og í sérnefnd um endurskoðun stjórnarskrár eiga sæti 8 karlar og 1 kona. Báðar nefndirnar gegna veigamiklum hlutverkum fyrir íslenskt samfélag. Á sama hátt og með sömu rökum er gagnrýnisvert að ný stjórn Kaupþings skuli einungs vera skipuð konum. Það má aldrei gleymast að við búum í kynjuðu samfélagi og til þess ber að taka tillit við allar ákvarðanatökur.

Samþykkt í mars 2009

Fyrir hönd Jafnréttisráðs
Hildur Jónsdóttir formaður