Fullt út úr dyrum á Akureyri

Tæplega tvöhundruð manns sóttu hádegisfund á Akureyri í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna. Umfjöllunarefni fundarins var líðan ungs fólks. Frummælendur voru Ingibjörg Auðunsdóttir fyrrverandi sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri, menntaskólakennarinn Arnar Már Arngrímsson handhafi verðlauna Norðurlandaráðs í barna- og unglingabókmenntum 2016 og Karólína Rós Ólafsdóttir nemandi við Menntaskólann á Akureyri og formaður FemMa Femínistafélags skólans.

Ingibjörg fjallaði um erfið samskipti og líðan ungra stúlkna en þar er hún á heimavelli. Ingibjörg sagði vanlíðan meðal stúlkna hafa aukist mikið undanfarin ár. Máli sínu til stuðnings vitnaði hún í rannsóknir sem sýndu að kvíði ungra stúlkna hefur aukist úr 5,12 % í 16,79% sl. sextán ár. Hún sagði foreldrana gegna mikilvægu hlutverki en besta hjálp barnsins gæti falist í því að styrkja foreldrana.

Arnar Már talaði tæpitungulaust um skjásamfélagið sem við lifum og hrærumst í: „Hugurinn er berskjaldaður og á öllum tímum hefur verið setið um huga okkar en aldrei eins og nú. Nú fæðast menn inn í skjásamfélag þar sem skilaboðin eru kauptu, vertu flottur, vertu frægur, vertu brútal, vertu hress, vertu sæt, vertu fitt, vertu glansandi, vertu, og sértu ekki neitt, vertu ekki að flækja málin, kauptu og vertu eitthvað. Foreldrarnir og skólarnir eiga að sjá um hið uppbyggilega en afþreyingin sér um að grafa undan því.“ Sagði Arnar.

Karólína Rós lýsti því hvernig óteljandi raddir töluðu til ungs fólks um hvernig það ætti að vera og hvað það ætti að gera. Hvernig staðalmyndirnar, auglýsingar og myndir í umhverfi okkar ala á fullkomleika sem ómögulegt er að ná. Hún sagði mikilvægt að kenna unglingum að sjá í gegnum skilaboðin sem fælust í myndunum.

Að fundinum stóðu Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa.