Fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál hefst föstudaginn 9. desember 2011

Fyrsti fundur í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál verður haldinn í Hörpunni í Reykjavík föstudaginn 9. desember klukkan 11.30 til 14.15. Tilefni þessa fyrsta fundar er alþjóðlegi mannréttindadagurinn, 10. desember, en Sameinuðu þjóðirnar hvetja aðildarlönd til að taka mannréttindamál til sérstakrar umfjöllunar þann dag.

Á fyrsta fundinum verður fjallað um fyrirtöku hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi í Universal Periodic Review ferlinu og verður sérstaklega fjallað um þær athugasemdir sem íslenskum stjórnvöldum bárumst og ekki hefur verið tekin afstaða til (sjá drög að skýrslunni hér).

Ennfremur verður fjallað um samning Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi en Ísland var eitt 11 ríkja sem fyrst skrifuðu undir samninginn í apríl sl., en hefur ekki fullgilt hann. Johanna Nelles, sérfræðingur frá Evrópuráðinu, sem hefur unnið að samningunum mun fjalla um samninginn, efni hans og mögulega framkvæmd.Fundurinn verður haldinn á fyrstu hæð í Hörpunni í Reykjavík föstudaginn 9. desember og stendur frá klukkan 11.30 til 14.15 og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Með fundaröðinni leitast innanríkisráðuneytið við að fjalla um mannréttindi frá ýmsum sjónarhornum og um helstu alþjóðasáttmála sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir. Fundaröðin er hluti af undirbúningi landsáætlunar í mannréttindum á Íslands og er gert ráð fyrir að málfundirnir verði haldnir mánaðarlega fram á mitt næsta ár. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á fyrsta fundinn í fundaröðinni.

Fundurinn fer fram á íslensku en erindi erlends fyrirlesara mun liggja fyrir á íslensku og táknmálstúlkun verður einnig fyrir hendi.


DAGSKRÁ:

11.30 – 11.45
Landsáætlun í mannréttindum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ávarp og kynnir undirbúning við gerð landsáætlunar í mannréttindum.

11:45 – 12:45
Athugasemdir til Íslands úr UPR ferlinu

Sendinefnd Íslands undir forystu innanríkisráðherra fjallar um og kynnir helstu athugasemdir varðandi Ísland í Universal Periodic Review fyrirtöku hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í október sl.

Fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands fjallar um skuggaskýrslu Íslands.

Opnar umræður og athugasemdir.

Samningur Evrópuráðsins um bann við kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi

13:00 – 13:20
Johanna Nelles, sérfræðingur Evrópuráðsins í jafnréttismálum.

13:20 – 14:15
Pallborð og opnar umræður með þátttöku fulltrúa UNWomen – íslensk landsnefnd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu, Stígamóta, Kvennaathvarfsins auk Ingólfs V. Gíslasonar.