Fundur á Hótel KEA 11. apríl – Fréttatilkynning

Næstkomandi föstudag munu Jafnréttisstofa og Félag kvenna í atvinnulífinu á Norðurlandi (FKA) standa fyrir málþingi um fjölbreytta og faglega forystu fyrirtækja á Hótel KEA. Málþingið er frá kl.12-14 og er öllum opið. Forystufólk úr norðlensku atvinnulífi er hvatt til að fjölmenna á málþingið og taka þátt í umræðum.
Með málþinginu vill Jafnréttisstofa vekja athygli á mikilvægi þess að jafna hlut kynjanna í stjórnendastöðum í atvinnulífinu og virkja þá auðlind sem býr í bæði körlum og konum, samfélaginu öllu til heilla. Um þessar mundir vinnur Jafnréttisstofa að verkefni sem hefur að markmiði að stuðla að aukinni umræðu í samfélaginu um fjölbreytta og faglega stjórnarhætti þar sem hæfileikar og reynsla beggja kynja fær notið sín. Verkefnið er stutt af PROGRESS-áætlun Evrópusambandsins.