Fundur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra boðaði til fundar um lög um kvóta í stjórnum fyrirtækja 22. janúar sl. Fundurinn var boðaður í þeim tilgangi að fá fram sjónarmið stjórnenda í atvinnulífinu á því hvernig lögin um kynjakvóta væru að virka. Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum úr ýmsum geirum atvinnulífsins sem skiptust á skoðunum um tilgang laganna, virkni þeirra og framkvæmd. Á fundinum kom m.a. fram að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkar eftir því sem að þau eru stærri og að viðhorf margra í atvinnulífinu til kvóta í stjórnum fyrirtækja hefur orðið jákvæðara á síðustu árum. Fundurinn hófst á því að Margrét Sæmundsdóttir hagfræðingur hjá atvinnuvega- og  nýsköpunarráðuneytinu fór yfir nýjar tölur um kynjaskiptingu í stjórnum félaga. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri hefur hækkað mikið á undanförnum árum - og er hlutfallið hæst í stærstu fyrirtækjunum. Þá er það jafnframt einkar athyglisvert að hlutfall kvenna í skráðum fyrirtækjum á Íslandi er það hæsta í Evrópu.

Eggert B. Guðmundsson forstjóri N1, Björgólfur Jóhannsson forstjóri IcelandairGroup  og Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis fluttu framsögur og í kjölfar þeirra voru einkar líflegar umræður þar sem að ólík rök og sjónarmið tókust á. Fundarmenn voru þó sammála um mikilvægi opinnar umræðu um kynjakvótann milli stjórnvalda og atvinnulífs sem og í öllu samfélaginu.