Fundur með hagsmunaaðilum vegna nýrra laga um bann mismunun

Í tilefni af nýsamþykktum lögum á Alþingi er varða annars vegar jafna meðferð á vinnumarkaði og hins vegar jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, boðaði Jafnréttisstofa til fundar með fulltrúum samtaka sem hafa hagsmuna að gæta vegna gildistöku laganna. En skv. 5. gr. beggja laga er Jafnréttisstofu falið að annast framkvæmd þeirra.

Fundurinn fór fram á Kjarvalsstöðum þann 4. september sl. og mættu þangað fulltrúar frá Þroskahjálp, Öryrkjabandalaginu, Samtökunum ′78, Félagi eldri borgara, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samráðsvettvangi trúfélaga, Kvenréttindafélaginu, Geðhjálp, Fjölmenningarsetri og Amnesty.

Fundurinn var góður og gagnlegur en tilgangur hans var að eiga samtal um samstarf Jafnréttisstofu og hagsmunasamtaka þannig að sem best takist til við að vinna gegn mismunun og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga. Fram fór kynning á lögunum og hlutverki Jafnréttisstofu og svo fóru fram góðar umræður um væntingar til laganna og forgangsverkefni.