Fylgjum hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni!

Þann 9. júní nk. kynna Mannréttindaskrifstofa Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytið niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til mismununar á Íslandi og ýta átaki gegn mismunun Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni! formlega úr vör. Kynningin fer fram í Hringborðsstofu, Þjóðmenningarhúsi, kl. 14. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, tekur til máls ásamt fulltrúum Mannréttindaskrifstofu Íslands og Capacent Gallup.
Í könnuninni, sem framkvæmd var af Capacent Gallup í apríl sl., var mismunun greind út frá sex forsendum: kynferði, fötlun, kynhneigð, trú, aldri og kynþætti/þjóðerni. Þrjátíu og níu spurningar, sem unnar voru með hliðsjón af Eurobarometer-könnun Evrópusambandsins, Discrimination in the European Union voru lagðar fyrir 1200 Íslendinga og því er könnunin samanburðarhæf í ríkjum ESB. Niðurstöður könnunarinnar eru um margt áhugaverðar og verða þær kynntar ítarlega á fundinum. Samhliða kynningunni á könnuninni verður átakinu Fylgdu hjartanu ýtt úr vör en markmið þess er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytni fyrir íslenskt samfélag og þá staðreynd að þótt fólk sé ólíkt á yfirborðinu þá erum við öll eins inn við beinið. Átakinu er ætlað hvetja fólk til að líta í eigin barm og kveða niður fordóma sína og stuðla þannig að samfélagi þar sem allir íbúar njóta virðingar og jafnra tækifæra.

Könnunin og átakið eru styrkt af Progress-áætlun Evrópusambandsins, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Þróunarsjóði innflytjendamála. Að verkefninu koma einnig Alþjóðahúsið, Fjölmenningarsetrið, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Samtökin 78, Samráðsvettvangur trúarbragða og Landssamtökin Þroskahjálp.

Nánari upplýsingar veita Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands í síma 8950085 (icehr@humanrights.is) og Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í síma 5458100 (linda.ros.alfredsdottir@fel.stjr.is)