Fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum

Um skeið hefur lista- og hugsjónahópurinn Barningur varpað ljósi á ýmiss samfélagsmál sem tengjast jafnrétti. Hópurinn hefur með umræðu og listsköpun fjallað um staðalmyndir kynjanna, útlitsdýrkun og átröskunarsjúkdóma ásamt því að fjalla um áhrif klámvæðingar á hugmyndir ungs fólks um kynlíf. Á morgun fimmtudaginn 21. ágúst munu þrír meðlimir hópsins, þau Elín Inga Bragadóttir, Margrét Helga Erlingsdóttir og Aron Freyr Heimisson halda fyrirlestur um öryggi kvenna í þjónustustörfum. Fyrirlesturinn er haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri (Kaupvangsstræti / Listagil), er öllum opinn  og hefst klukkan 17:30.


Síðastliðinn vetur hóf Barningur söfnun dæma og dæmisagna undir yfirskriftinni „kynlegar athugasemdir“, á facebook. Ætlunin var að varpa ljósi á misrétti sem fólk verður fyrir í hversdagslífinu sem má rekja má til kyns, kynferðis eða kynhneigðar. Óhætt er að segja að framtakið hafi vakið mikla athygli. Nú í sumar hafa tveir aðstandendur listhópsins, þær Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir,  starfað í samstarfi við Róttæka sumarháskólann og skapandi sumarstörf Akureyrarbæjar. Markmið þeirrar vinnu var að greina það efni sem safnast hefur í tengslum við  „Kynlegar athugasemdir“. 

Í kynningarefni vegna fyrirlestursins  segir:  „Í frásögnum [...] má greina nokkur meginþemu, en eitt þeirra er lítillækkandi framkoma í garð ungra kvenna í þjónustustörfum. Aragrúi innleggja um þessi mál sýnir að kynbundið áreiti er landlægt vandamál innan þjónustugeirans og að öryggi kvenna í þessari starfsstétt er verulega ábótavant.“