Fyrsta jafnlaunastaðfestingin

Húsnæði umboðsmanns skuldara.
Húsnæði umboðsmanns skuldara.

Embætti umboðsmanns skuldara hlaut þann 10. febrúar fyrst fyrirtækja og stofnana jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu.

Til þess að hljóta jafnlaunastaðfestingu þurfa fyrirtæki og stofnanir að standa skil á ýmsum gögnum, til að mynda starfaflokkun, launagreiningu og útreikningi á kynbundnum launamun, viðbótargreiðslum og aukagreiðslum til kvenna og karla. Hjá Umboðsmanni skuldara starfa 17 konur og því ekki mögulegt að standa skil á útreikningi á kynbundnum launamun. Jafnlaunastaðfesting er engu að síður staðfesting Jafnréttisstofu á því að launakerfið og framkvæmd þess mismuni ekki í launum og kjörum óháð því hvernig kynjaskiptingin er á vinnustaðnum á hverjum tíma og því um mikilvægan áfanga að ræða.

Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa að jafnaði 25 – 49 starfsmenn hafa val um það að öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu eigi síðar en 31. desember 2022. Jafnréttisstofa vinnur nú að því að útbúa leiðbeiningar til þeirra aðila sem velja staðfestingarleiðina.