Fyrsta kvenbæjarstjórans minnst í Kópavogi

Fimmtíu ár eru liðin frá því að Hulda Jakobsdóttir varð bæjarstjóri Kópavogs fyrst kvenna á Íslandi. Þessara tímamóta var minnst með opnun örsýningar í Bókasafni Kópavogs miðvikudaginn 4. júlí. Við þetta tækifæri var jafnréttisviðurkenning Kópavogs einnig afhent.
Jafnréttisnefnd Kópavogs og aðstandendur Huldu standa að þessari sýningu, en hún samanstendur af munum í eigu ættingja Huldu Jakobsdóttur, auk opinberra skjala sem geymd eru í Héraðsskjalasafni Kópavogs. Við opnunina voru haldin ýmis erindi og þar á meðal lýsti Hulda Dóra Styrmisdóttir, dótturdóttir Huldu, ömmu sinni sem fyrirmynd. Einnig lagði Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður, áherslu á mikilvægi þess að halda upp á opinber gögn og skjöl sem hjálpa við að varðveita söguna og varpa ljósi á það starf sem frumkvöðlar eins og Hulda unnu á sínum tíma.

Jafnréttisnefndin notaði þetta tækifæri til þess að afhenda jafnréttisviðurkenningu Kópavogs. Í þetta sinn var ákveðið að veita útibúi Landsbanka Íslands í Smáralind viðurkenninguna og tók Guðrún Ólafsdóttir, útibússtjóri, við henni. Kom það fram í yfirlýsingu jafnréttisnefndar að vel hefði tekist að framfylgja jafnréttisáætlun Landsbankans í útibúi bankans í Smáralind.