Fyrstu jafnréttisviðurkenningar Stígamóta

Fyrstu jafnréttisviðurkenningar Stígamóta voru veittar við hátíðlega athöfn í Iðnó föstudaginn 21. nóvember í tengslum við Evrópumálstofu um kynbundið ofbeldi. Eftirtaldar konur hlutu jafnréttisviðurkenningar Stígamóta árið 2008:

Margrét Steinarsdóttir 
Fyrir langt og óeigingjarnt starf í þágu Stígamóta. Fyrir að hafa alla tíð verið boðin og búin til liðsinnis. Fyrir að hafa oft tekið að sér vandasöm verk eins og lögfræðilega ráðgjöf, fræðslu, peningagæslu, nefndarstörf og ýmislegt fleira. Ekki þó síst fyrir fyndni, greind, þægilega nærveru og órjúfanlega tryggð við starfsemina.


Kolbrún Halldórsdóttir 
Fyrir að hafa flutt mörg mikilvæg þingmál tengd kynbundnu ofbeldi. Fyrir að hafa þrautseigju og hugrekki til þess að fylgja þeim eftir þrátt fyrir illskiljanlegan mótbyr. Fyrir að hafa verið óþreytandi ötul í að flytja boðskap og hugmyndafræði Stígamóta inn í þingsal. Fyrir að hafa tekið að sér ýmis verkefni fyrir Stígamót í baráttunni gegn mansali. Fyrir að vera alltaf í liði með okkur.


Katrín Anna Guðmundsdóttir
Fyrir að vera óþreytandi talskona feminisma á Íslandi. Fyrir ótal mikilvæga pistla um málefni kynjanna. Fyrir þekkingu, visku og hugrekki. Fyrir að ganga á undan og teygja mörk hins leyfilega í baráttunni fyrir réttlátara þjóðfélagi og auka þannig rými okkar hinna.

Matthildur Helgadóttir 
Fyrir að hafa fengið snilldarhugmynd vestur á Ísafirði og hrint henni í framkvæmd með hjálp góðs fólks. Aðgerðin “Óbeisluð fegurð” hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og Stígamótakonur eru stoltar af skemmtilegu samstarfi við kvenskörunginn í alþjóðasamhengi. Fyrir að leggja þung lóð á vogarskálarnar til þess að sýna fram á afkáraleika þröngra staðalímynda kynjanna. Fyrir að hafa nýtt fyndni og frumlega hugsun sem eru beitt verkfæri í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi og vera þannig hvatning fyrir okkur öll.


Þorgerður Einarsdóttir 
Fyrir að gegna ómetanlegu uppeldishlutverki fyrir fræðifólk framtíðarinnar. Fyrir einstaka þekkingu og færni í að beita hinu mikilvæga verkfæri kynjafræði í baráttunni fyrir réttlátu samfélagi. Fyrir að hafa verið óþreytandi við að miðla færni sinni til annarra. Fyrir örlæti, velvilja og hlýju. Fyrir að hafa alltaf veitt stuðning og ráð þegar á hefur þurft að halda.