Góð þátttaka í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi

 

Þann 25. nóvember sl. var 16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 20. sinn um allan heim. Átakið hefur beinst að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Yfirskrift átaksins á Íslandi í ár var Heimilisfriður-Heimsfriður og áhersla lögð á að vera vakandi fyrir þeirri vá sem fylgir ofbeldi í nánum samböndum sem er mjög falið vandamál í okkar samfélagi. Þann 25. nóvember sl. var 16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 20. sinn um allan heim. Átakið hefur beinst að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Yfirskrift átaksins á Íslandi í ár var Heimilisfriður-Heimsfriður og áhersla lögð á að vera vakandi fyrir þeirri vá sem fylgir ofbeldi í nánum samböndum sem er mjög falið vandamál í okkar samfélagi.

 

 

Átakið á Akureyri hófst með litlu málþingi í Kvos Menntaskólans á Akureyri þar sem Katrín Björg Ríkarðsdóttir, forstöðumaður samfélags- og mannréttindadeildar bæjarins  kynnti  aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn ofbeldi gegn konum og börnum.  Aflið kynnti  starfsemi sína og framhaldsskólanemendur settu á svið gjörning út frá tölulegum upplýsingum um ofbeldi gegn konum í heiminum.  Framhaldsskólarnir á Akureyri tóku virkan þátt í átakinu í ár með fræðslu fyrir nemendur bæði frá kennurum og fulltrúa Jafnréttisstofu auk þess sem þrír nemendur Verkmenntaskólans skrifuðu grein um heimilisofbeldi sem birtist á visir.is.  Um 70 nemendur tóku þátt í ljósagöngu sem farin var á Ráðhústorg í kjölfar málþingsins þar sem fólk safnaðist saman og sýndi brotaþolum kynbundins ofbeldis stuðning með samstöðu og ljóðalestri nemanda úr Menntaskólanum. Í ár var boðið upp á kvikmyndasýningu í samstarfi við Sambíóið á Akureyri og Paradísarbíó í Reykjavík þar sem verðlaunamyndin  „Pray the devel back to hell“  var sýnd og var mæting góð.

 

 

Jafnréttisstofa, Aflið, Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi, Akureyrarbær og kirkjurnar á Akureyri stóðu fyrir fjölmennri hádegisstund í Glerárkirkju  með  Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Sigrúnu  Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðingi.  Guðrún Ebba las upp úr bók sinni „Ekki líta undan“ og Sigrún fjallaði um niðurstöður rannsókna sinna á kynferðislegu ofbeldi gegn drengjum og stúlkum.  Þórhildur Örvarsdóttir söng nokkur lög og stundinni lauk með hugleiðingu sr. Hildar Eirar Bolladóttur.  Safnaðarheimili Glerárkirkju var pakkfullt en um 80 manns sóttu það heim þessa stund.

Unga fólkið var áberandi í átakinu á Akureyri  í ár en leikhópurinn Þykista sem samanstendur af fólki á aldrinum 20-28 ára setti á svið gangverk í tengslum við átakið í miðbæ Akureyrar.  Gangverkið nefndist "Griðastaður-Stríðsvöllur" og gátu gestir og gangandi litið við og séð ýmsar birtingarmyndir heimilisofbeldis og firringar sem felst m.a. í að börn horfi á fréttaþætti um stríðsátök og limlestingar með pop og kók í kjöltunni.  Verkið var mjög sterkt og til þess fallið að sýna það í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólunum sem vonandi verður gert.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011-2014 er kveðið á um að meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar verði nú einnig á boðstólum víðar um land. Akureyri og nágrenni verða fyrst til að njóta aukinnar þjónustu við karla sem vilja losna úr vítahring ofbeldisbeitingar.   Meðferðarúrræðið var kynnt á opnum fundi á Hótel Kea sem hluti af 16 daga átakinu og voru fundarboð send til þeirra aðila á Norðurlandi sem koma að ofbeldi á heimilum og eru líklegir til að benda körlum sem beita maka sína ofbeldi á slíka leið til úrbóta.  Einnig voru haldnir fundir með starfsfólki félagsþjónustunnar og sjúkrahússins á Akureyri. 

Á lokadegi átaksins, alþjóðlega mannréttindadeginum,  bauð undirbúningshópurinn á Akureyri ásamt Háskólanum á Akureyri, Forlaginu og Eymundsson upp á mannréttindakaffi í Eymundsson þar sem  Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri lagadeildar HA ávarpaði gesti,  Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við heilbrigðisvísindasvið HA flutti erindi, og Vigdís Grímsdóttir las valinn kafla úr bók sinni „Trúir þú á töfra“.  Einnig tóku  gestir í Eymundsson þátt í alþjóðlegu bréfamaraþoni Amnesty International  með því að skrifa undir kort til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi.

Átakið í ár hlaut mikla athygli fjölmiðla á Akureyri sem birtu viðtöl í blöðum , útvarpi og sjónvarpi við fulltrúa sem stóðu að undirbúningi og aðra sem tóku þátt í átakinu.  Borði með áletruninni „Segðu frá“ var áberandi í göngugötunni í bænum og fulltrúar Aflsinshafa selt armbönd með sömu áletrun til styrktar starfsemi þeirra sem hefur aukist mikið undanfarin ár.  Akureyrarbær tók virkan þátt í átakinu, ráðhús bæjarins var baðað appelsínugulum geislum, samfélags- og mannréttindaráð styrkti átakið og Amtsbókasafnið setti fram bækur sem tengdust  yfirskrift átaksins.  Verkmenntaskólinn kom mjög sterkur inn í ár en bókasafnsfræðingar í skólanum settu fram bækur og listnámskennari útbjó veggspjald þar sem dagskrá átaksins kom fram en veggspjaldinu var dreift víða um bæinn.   Rúmlega 300 manns tóku þátt í 16 daga átakinu á Akureyri í ár og vill undirbúningshópurinn þakka öllum þeim sem gáfu vinnu sína og tóku þátt að þessu sinni.


Undirbúningshópur 16 daga átaksins á Akureyri komu frá:

 

Jafnréttisstofu

Aflinu

Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi

Akureyrarbæ

Verkmenntaskólanum á Akureyri

Menntaskólanum á Akureyri