Hádegissamvera í Eymundsson á Akureyri

Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi mun Vigdís Grímsdóttir lesa úr nýútkominni bók sinni "Dísusaga" kl. 12:00 föstudaginn 6. desember í Eymundsson á Akureyri.

Í umfjöllun um bókina segir útgefandi: "Sagan er mögnuð og segir frá stúlku sem tíu ára gömul verður fyrir ofbeldi og lokast inni í dýflissu þöggunar og feluleikja. Í fimmtíu ár sér hún enga útgönguleið, en dag einn fær hún frelsi hjá kúgara sínum og fyrrverandi bjargvætti til að skrifa, þó aðeins í tvo mánuði. Tíminn er naumur og Dísa ákveður að skrifa bréf til mannsins sem hún hefur alltaf elskað. En tekst henni að segja sannleikann?

Í Norðurfirði á Ströndum nýtur Dísa ómældrar gleði yfir öllu því sem náttúran og fólkið þar gefur henni til að takast á við ólgandi tilfinningar. Umlukt fjöllunum og sjónum og örygginu á Kaffihúsinu skrifar hún söguna og minningarnar streyma fram. Þetta er saga Dísu, saga ofbeldis, einlægni og mannúðar. Þetta er líka sagan okkar; óvænt, hrífandi og dásamleg bók þar sem Vigdís Grímsdóttir víkur fyrir Dísu Gríms sem nú fær orðið."