Hafa bara karlar vit á fótbolta?

Jafnréttisstofu hafa á undanförnum dögum borist ábendingar og kvartanir vegna skorts á sýnileika kvenna við lýsingar á leikjum á HM í Suður Afríku. Karlar eru í aðalhlutverki leikskýrenda hérlendis og sem dæmi má nefna að allir leikskýrendur hjá Ríkissjónvarpinu eru karlar. Þegar litið er til hinna Norðurlandanna er annað uppi á teningnum t.d. hjá sænska ríkissjónvarpinu þar sem bæði karlar og konur koma fram sem leikskýrendur. Miðað við gott gengi íslenskra kvenna í fótbolta á undanförnum árum þykir það skjóta skökku við að ekki sé leitað til þeirra kvenna sem spila eða hafa spilað með fótboltaliðum hérlendis sem erlendis og hafa reynslu og þekkingu á þessu sviði.