Hátíðardagskrá 19. júní 2014


Í ár eru liðin 99 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895.  Í tilefni kvenréttindadagsins í ár er boðið upp á dagskrá á Akureyri og í Reykjavík sem er öllum opin og aðgangur ókeypis.




 
AKUREYRI:


Í tilefni kvenréttindadagsins þann verður boðið upp á kvennasögugöngu um Oddeyrina á Akureyri og kvikmyndasýningu í Sambíó. 

Saga kvenna á Oddeyrinni er mörgum hulin og því gefst hér kjörið tækifæri til að fá innsýn í líf og störf þeirra en konur á eyrinni sáu t.d. um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Guðfinna Hallgrímsdóttir og Hallgrímur Skaptason munu leiða gönguna og varpa ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni. Kvennasögugangan hefst við Ráðhústorg kl. 16:20 og lýkur við Gamla Lund. Gangan er öllum opin en hún er í boði Jafnréttisstofu, Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Minjasafnsins á Akureyri, Zontakvenna og Akureyrarbæjar. 

Að göngu lokinni, kl. 18:00 er göngufólki boðið upp á sýningu í Sambíói á sænsku verðlaunamyndin Monika Z sem fjallar um ævi djass-söngkonunnar Monicu Zetterlund sem lést í eldsvoða á heimil sínu í Stokkhólmi fyrir átta árum. Hún var um tíma ein fremsta djasssöngkona heims og söng meðal annars inn á plötu Billy Evans – Waltz for Debby. Aðalleikona myndarinnar er hin íslenskættaða Edda Magnason og einnig leikur Sverrir Guðnason stórt hlutverk í myndinni. Þau hlutu á dögunum sænsku kvikmyndaverðlaunin, Gullbjölluna, fyrir leik sinn. Kvikmyndasýningin er í boði Kvikyndis, Norrænu upplýsingaskrifstofunnar á akureyri, jafnréttisstofu og sænska sendiráðsins á Íslandi.


REYKJAVÍK:

Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands bjóða upp á opinn fund kl. 17:00 að Hallveigarstöðum þar sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fjallar um 100 ára kosningaafmælis kvenna 2015 og kennarar og nemendur í framhaldsskólum munu ræða um kynjafræðikennslu í framhaldsskólum hérlendis.
Styrkir verða veittir úr Menningar- og minningarsjóði kvenna og í tilefni dagsins verður boðið upp á rjómakökur og kaffi.

Reykjavíkurborg, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Kvennasögusafnið
, stendur fyrir hátíðardagskrá 19. júní. Dagskrá hefst kl. 19:30 í Hljómskálagarðinum, sunnan megin, þar sem Listasafn Reykjavíkur mun vígja höggmyndagarð, en þar munu 6 höggmyndaverk eftir íslenskar konur standa. Garðurinn vekur athygli á stöðu listakvennanna sem hafa sett sitt mark á listhefð í landinu. 

Eftir stutta dagskrá í Hljómskálagarðinum, eðakl. 20:00 mun Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafnsins, leiða göngu um kvennasöguslóðir í Reykjavík í samstarfi við Borgarbókasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Meðal annars verður gengið að Hólavallakirkjugarði þar sem lagður verður blómsveigur á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu við Þvottalaugarnar í Laugardal  kl. 20:00 í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar, Inga Jóna Þórðardóttir flytur ávarp, Ásdís Þórðardóttir leikur Áfram stelpur! á trompet, Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng og Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söngnum. Á eftir er opið hús í Café Flóru.