Heimsókn í Fjarðabyggð

Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum sótti um og fékk styrk frá Alcoa Fjarðaáli til að stuðla að jafnréttisfræðslu í Fjarðabyggð. Fyrsta skrefið var stigið nú í vikunni þegar Arnfríður Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri og Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu heimsóttu Fjarðabyggð.

Arnfríður og Kristín kynntu verkefnið á fundum með fræðslunefnd, skólastjórum, félagsmálanefnd og sviðstjórum í Fjarðabyggð. Ferðinni lauk með heimsókn í Fjarðaál og kynnisferð um álverið. Mikill áhugi er á jafnréttismálum í Fjarðabyggð og má geta þess að Alcoa Fjarðaál hlaut á síðasta ári viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir störf sín á sviði jafnréttismála.

Miklar og góðar umræður sköpuðust á fundunum og höfðu fundarmenn m.a. áhyggjur af kynbundnum launamun og fjarveru kvenna í valda og virðingastöðum. Menn voru sammála um að raunverulegt jafnrétti krefst hugarfarsbreytingar og henni náum við ekki nema með því að fræða börn og unglinga um jafnréttismál. Fundarmenn sýndu jafnréttisfræðsluverkefninu mikinn áhuga og töldu að öll börn í Fjarðabyggð ættu að fá markvissa jafnréttisfræðslu og þar gegndu leik- og grunnskólar mikilvægu hlutverki.

Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum hefur nú verið í gangi í tíu mánuði. Á þeim tíma hefur komið í ljós að efla þarf kynjafræðilegan grunn kennara og auka þekkingu þeirra á jafnréttismálum.            

Helga Jónsdóttir bæjarstýra í Fjarðabyggð og Þóroddur Helgason fræðslustjóri töldu að næsta skref fælist í því að skoða möguleika á jafnréttisfræðslu fyrir kennara í sveitarfélaginu.