Hernaðarlist og valdaklækir?

Stjórnmálafræðideild HÍ og MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna bjóða upp á málþing um stjórnmálamenningu samtímans mánudaginn 24. október kl. 12-13:30 í hátíðarsal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmælis háskólans og 15 ára afmælis  námsbrautar í kynjafræði.

Það eru umbrotatímar í íslenskum stjórnmálum. Rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýndi stjórnmálamenningu okkar fyrir "hernaðarlist", "valdaklæki" og "skort á fagmennsku". Vantraust á stjórnmálaflokkum og Alþingi er meira en nokkru sinni. Í samfélagsumræðunni hafa ýmsir tengt fyrrnefndu einkennin við karlaslagsíðu stjórnmálanna. Á málþinginu verður rætt hvort ríkjandi stjórnmálamenning sé tamari körlum en konum og  hvort eitthvað hafi  breyst eftir hrun. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu og Bergljót Þrastardóttir MA-nemi í opinberri stjórnsýslu munu flytja stutt inngangserindi og síðan verða pallborðsumræður með frummælendum og fjórum  núverandi og fyrrverandi stjórnmálamönnum, þingmönnunum Guðmundi Steingrímssyni og Unni Brá Konráðsdóttur, Óttari Proppé borgarfulltrúa og Þórunni Sveinbjarnardóttur fv. þingkonu.


Efni inngangserinda:

Kristín Ástgeirsdóttir: Boðflennur í veislusölum valdsins?

Fyrstu konunum í  bæjarstjórnum og á Alþingi var fremur illa tekið og því verr sem leið á fyrri  hluta 20. aldar. Þær voru óvelkomnar og máttu oft þola algjöra þöggun. Þegar konum tókst að brjótast  í gegnum karlakórinn rákust þær þó harkalega á ríkjandi  karlamenningu í  veislusölum valdsins þar sem skylmingar, orðaskak og hrossakaup  tíðkuðust, stundum í reykfylltum bakherbergjum þar sem karlar voru í meirihluta. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um þá stjórnmálamenningu sem einkenndi aðdraganda þeirrar efnahags- og siðferðiskreppu sem leiddi til hrunsins. Er sú stjórnmálamenning sem skýrslan lýsir enn við lýði og er hún tamari körlum en konum? Hvernig og hvers vegna gerist það að karlar  raða sér nú í þær nefndir Alþingis sem deila út fjármagni, ákveða skatta  og fjalla um bankana, meðan konurnar sinna menntun, menningu og  velferðinni? Er sagan að endurtaka sig?


Bergljót  Þrastardóttir: "Maður þarf helst að standa upp á kassa og garga"

Kynnt verður ný rannsókn á reynslu og viðhorfum kvenna á sveitarstjórnarstiginu og innan stjórnmálaflokka. Niðurstöður eru m.a. þær að þrátt fyrir aukinn hlut  kvenna í  sveitarstjórnum mæta konum  ákveðnar hindranir í störfum  þeirra á  sveitarstjórnarstiginu og innan stjórnmálaflokka. Þessar  hindranir felast m.a. í aðgangi að ákvarðanatöku og völdum, ákveðinni  þöggun og jafnvel  útilokun/ósýnileika sem falla að kenningum Berit Ás sem hefur sett fram greiningu á fyrrgreindum hindrunum sér í lagi innan  skipulagsheilda og  stjórnmálaflokka þar sem valdamisræmi ríkir. Þetta  endurspeglast m.a. í því að  konur endast skemur í stjórnmálum en karlar.  Af þeim konum sem kjörnar voru í  sveitarstjórnir árið 2010 voru 35%  endurkjörnar en hlutfallið meðal karla var  48%. Í sveitarstjórnarkosningum  1990 var hlutfall endurkjörinna kvenna 26%.