Hraustir menn. Sköpun kyngervis og sjálfsmyndar í íslensku friðargæslunni

RIKK Rannsóknastofa kvenna- og kynjafræðum býður upp á hádegisfyrirlestur í Öskju fimmtudaginn 26. apríl. Þar mun Helga Þórey Björnsdóttir, doktor í mannfræði flytja erindið „Hraustir menn. Sköpun kyngervis og sjálfsmyndar í íslensku friðargæslunni”Í erindinu, sem byggir á samnefndri doktorsrannsókn, er fjallað um menningarlegar og félagslegar hugmyndir um karlmennsku og kyngervi eins og þær birtust hjá hópi íslenskra karlmanna sem unnu sem gæsluliðar hjá Íslensku friðargæslunni. Þessi hópur getur, í krafti kyngervis og félagslegrar stöðu sinnar, talist hluti af ríkjandi kynjanormi samfélagsins. Fjallað verður um með hvaða hætti slík staða hefur mótandi áhrif á hvernig einstaklingarnir skapa og birta kynjaða sjálfsmynd sína í tengslum við rýmislega og félagslega staðsetningu. Þá er sjónum einnig beint að Íslensku friðargæslunni sem opinberu rými og á hvern hátt hún birtist í opinberum orðræðum sem og staðsetningu hennar í alþjóðlegu samhengi. Bent er á að stofnun friðargæslunnar og val á verkefnum beri í raun órækt vitni um vaxandi áhrif karllægrar hugmyndafræði innan samfélagsins.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 132 kl. 12.00-13.00 og er öllum opinn.