Hundrað konur bjóða sig fram til setu í stjórnum fyrirtækja

Í dag birtist auglýsing í helstu dagblöðum landsins þar sem yfir 100 konur lýstu sig reiðubúnar til stjórnarsetu í stærstu fyrirtækjum landsins.   Með þessu sameiginlega átaki Félag kvenna í atvinnurekstri og LeiðtogaAuðar er markmiðið að kveða niður hugmyndir um að konur segi alltaf "nei" þegar til þeirra er leitað um setu í stjórnum.

,,Fyrirtækin og þjóðfélagið hafa ekki lengur efni á því að nýta ekki þann kraft sem í konum býr.  Við höfum menntunina og/eða reynsluna og viljum gjarnan komast í leikmannahópinn og af varamannabekknum ...,” kemur fram í tilkynningu frá FKA.

Það eru FKA og LeiðtogaAuður, félag kvenna í stjórnendastöðum stærstu fyrirtækja landsins, sem standa á bak við auglýsinguna í þeim tilgangi að hvetja fyrirtæki til að setja konur á dagskrá við tilnefningu í stjórnir. Félagið telur að hvorki fyrirtækin né samfélagið hafi efni á því að konur skipi áfram innan við 10% stjórnarsæta í íslenskum fyrirtækum, en sú hefur verið raunin árum saman.
 
Listinn varð til í framhaldi af umræðu um að æðstu stjórnendur landsins þekki mun minna til kvenna en karla í íslensku viðskiptalífi. Til að aðstoða þau fyrirtæki, sem vilja gjarnan fá konur inn í sínar stjórnir, töldu þessi tvö félög rétt að koma listanum á framfæri í dagblöðum og með bréfi til stjórnenda 150 stærstu fyrirtækjanna. Á listanum eru  hæfileikaríkar og vel menntaðar  konur  með víðtæka reynslu á mörgum sviðum, sem allar hafa áhuga á að taka sæti í stjórnum þegar þær eru beðnar um það. Þessi listi er hinsvegar engan veginn tæmandi.