Hvað á að gera í þessu?

Femínistafélag Íslands heldur fyrsta Hitt vetrarins þriðjudaginn 11. september næstkomandi kl. 20 á Bertelstofu Thorvaldsen bars. Þar munu Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Kristín Ástgeirsdóttir, nýskipuð framkvæmdastýra Jafnréttisstofu halda stutt erindi.

Að framsöguerindum loknum er opnað fyrir umræður, en dagskráin stendur í tvo tíma. Fundarstýra er Auður Magndís Leiknisdóttir, talskona Femínistafélags Íslands.

Á hittinu bjóðum við ráðherra jafnréttismála og framkvæmdastýru Jafnréttisstofu velkomnar til starfa en spyrjum þær um leið hvernig þær hyggist vinna að jafnrétti kynjanna, hvaða verkefni þær vilji setja í forgang og hvert þær sæki innblástur í starfi sínu að jafnrétti kynjanna.

Femínistar leita svara við því hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera í jafnréttisbaráttunni og hvernig megi vinna að jafnrétti á þeim sviðum sem erfitt er að mæla, t.d. kynfrelsi kvenna og virðingu fyrir störfum þeirra, innan heimilis og utan. Þá er launamunur kynjanna að því er virðist óendanlegt vandamál sem leita þarf nýrra og varanlegra lausna á. Bæði ráðherra og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu eru nýjar í starfi og er Hittið því tilvalinn vettvangur til umræðu um framtíð mála.

Hitt Femínistafélags Íslands eru haldin mánaðarlega yfir vetrartímann og verða almennt haldin fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Hittin eru vettvangur fyrir femínista af báðum kynjum til að skiptast á skoðunum og ræða það sem er á döfinni hverju sinni.

Torvaldsen bar er að Austurstræti 8-10, Reykjavík.