Ísland í fyrsta sæti í átta ár

Alþjóða efnahagsráðið hefur gefið úr hina árlegu Global Gender Gap Report þar sem sýnt er fram á árangur 114 landa í jafnréttismálum. Samkvæmt skýrslunni er Ísland í efsta sæti eins og síðustu 7 ár þegar kemur að árangri í jafnréttismálum. Þegar horft er til þeirra þátta sem mæla árangur landa kemur í ljós að Ísland er í fyrsta sæti þegar kemur að forystu kvenna á sviði stjórnmálanna og aðgengi að menntun.
Ísland er í hópi tíu efstu landanna þegar litið er til atvinnuþátttöku og tækifæra á vinnumarkaði og  í 11. sæti þegar litið er til kynbundins launamisréttis.

Það vekur athygli að Ísland er í 104 sæti þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Frá því að fyrsta skýrslan kom út 2006 hefur Ísland minnkað kynjabilið (gender gap) um 12% sem sýnir hraða þróun í samanburði við önnur lönd.

Skýrslan sýnir einnig neikvæðar framtíðarhorfur þegar litið er til kynbundins launamisréttis á alþjóðavísu. Í fyrra reiknaði ráðið svo að 112 ár tæki að eyða launamismuninum en samkvæmt nýjum mælingum mun það taka 170 ár með sama áframhaldi.

Skýrsluna má nálgast hér: http://www3.weforum.org/docs/GGGR16/WEF_Global_Gender_Gap_Report_2016.pdf