Ísland vermir fyrsta sætið í alþjóðlegri úttekt á kynjajafnrétti

Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum) hefur gefið út sína árlegu skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum. Ísland er nú sjöunda árið í röð í efsta sæti þessarar úttektar ráðsins. Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum, þ.e. út frá aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga. Úttektin hefur nú verið framkvæmd 10 sinnum og í ár voru 145 ríki tekin út með tilliti til ofangreindra þátta.Það sem Íslandi er helst talið til tekna er jafnt aðgengi stúlkna og drengja að menntun, völd kvenna þ.e. í forsetastóli og í stóli forsætisráðherra og fæðingarorlofið, sér í lagi 90 dagar fyrir feður. 
Norðurlandaþjóðirnar eru sem fyrr í efstu sætum listans en það vekur athygli að Danmörk er ekki í efstu sætum listans í ár, fellur úr 5. sæti í það 14. Á eftir Íslandi er Noregur í öðru sæti, Finnland í þriðja og Svíþjóð í því fjórða og má lesa út úr skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins að tæp 20% vanti á til að jafna stöðu kynjanna að fullu meðal þessara þjóða. Í fimmta sæti er Írland, Rwanda í sjötta sæti og Filippseyjar í því sjöunda.  Samkvæmt skýrslunni mun taka
118 ár til viðbótar að loka kynjabilinu þegar litið er til launa og mun það hugsanlega nást árið 2133. 

Kynning á helstu niðurstöðum

Skýrslan