Íslendingar telja að kynjamisrétti einkenni samfélagið

Íslendingar telja að efnishyggja, skammsýni og óvissa um framtíðina einkenni íslenskt þjóðfélag, ef marka má rannsókn sem Capacent gerði nýlega og kynnt var á fyrirlestri Richards Barrett í Salnum í Kópavogi í síðustu viku. Kynjamisrétti er í níunda sæti yfir þau gildi sem almenningur telur að séu ríkjandi í samfélaginu, samkvæmt rannsókninni.Bæði kyn setja efnishyggju og skammsýni í efstu sæti þess sem einkennir samfélagið, en konur nefna kynjamisrétti oftar en karlar. Þannig er kynjamisrétti í 6. sætinu hjá konum en í 12. sæti hjá körlum. Konur nefndu líka jafnrétti oftar en karlar þegar spurt var um þau gildi sem fólk vildi helst að væru ráðandi í samfélaginu í framtíðinni. Þannig varð jafnrétti í tíunda sæti hjá konum í rannsókninni, en hjá körlum rataði jafnréttið ekki inn á topp tíu listann yfir æskileg gildi.

Athyglisvert er að bera niðurstöðurnar saman við niðurstöður sambærilegrar rannsóknar sem Capacent framkvæmdi í Danmörku, en samkvæmt henni telja Danir að tjáningarfrelsi, tækifæri til mennta og velsæld einkenni danskt þjóðfélag. Kynjamisrétti var ekki eitt af þeim tíu atriðum sem dönsku þátttakendurnir töldu helst einkennandi fyrir eigin samfélag.

Hægt er að sjá meira um könnunina í umfjöllun Íslands í dag.