Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn

„Íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn“ var yfirskrift 15 ára afmælis Jafnréttisstofu sem haldið var hátíðlegt í gær 15. september. Í tilefni dagsins settu þrír karlmenn upp kynjagleraugu og tjáðu sig um jafnrétti kynjanna. 
Um hundrað manns þáðu afmælisboð Jafnréttisstofu og gæddu sér á íslenskri kjötsúpu við harmonikkuleik Hildar Petru Friðriksdóttur, ráðgjafa hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fór yfir stöðu mála og Rósa Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í Velferðarráðuneytinu, flutti kveðju frá Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. Því næst var körlunum gefið orðið.Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar byrjaði á því að fletta ofan af tónlistar- og grínmyndinni „Með allt á hreinu“. Hann fór yfir það hvernig staðalmyndir kynjanna birtast í myndinni og mikilvægi þess að horfa með gagnrýnum augum á tungumálið og rótgrónar hugmyndir um hlutverk kynjanna sem er að finna allt í kringum okkur.

Haraldur Þór Egilsson, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri, rifjað upp uppvaxtarár sín en hann var alinn upp af einstærðri móður, ömmu og móðursystrum. Hann fór yfir hvernig rauðsokkur, kvennalistinn og Vigdís sem forseti ögruðu ríkjandi hugmyndum. Hann sagði m.a. frá því hvernig tengdamamma hans varð kjaftstopp þegar hún sá hann strauja skyrturnar sínar, svoleiðis áttu karlmenn ekki að haga sér. En nú eru aðrir tímar. 

Árni Matthíasson blaðamaður á Morgunblaðinu fór yfir svið karlmennskunnar og sagði jafnréttisbaráttuna ekki bara vera baráttu um jafnan rétt kvenna gagnvart körlum heldur væri hún ekki síður barátta fyrir rétti karla og lykilatriði í því að losa karla undan úreltum kröfum karlmennskunnar. „Aukið frelsi kvenna hefur aukið frelsi karla - konur hafa losnað úr hlutverkum sem þær voru þvingaðar í og um leið hafa karlar líka losnað úr prísundum. Jafnréttisbarátta er kvennabarátta og hún er líka karlabarátta, barátta fyrir því að stelpur getir orðið forsetar og eins að karlar þurfi ekki að verða forsetar.“ Sagði Árni.

Jafnréttisstofa þakkar öllum þeim sem litu inn og þáðu íslenska kjötsúpu en sérstaklega er frummælendum þakkað fyrir gott og vekjandi framlag.