Jafnrétti í framkvæmd

Jafnréttisstofa auglýsir námskeiðið ,,Jafnrétti í framkvæmd? í samstarfi við fjármálaráðuneytið og Endurmenntun Háskóla Íslands.
Námskeiðið er ætlað forstöðumönnum, starfsmannastjórum, jafnréttisfulltrúum stofnana og öðrum sem skipuleggja, innleiða eða stjórna jafnréttismálum hjá ríkisstofnunum.

Fjallað verður um framkvæmd jafnréttismála hjá opinberum stofnunum og kynnt ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem stofnunum er skylt að vinna eftir. Rætt verður um hugmyndafræði samþættingar, sem jafnréttislögin byggjast á, m.a. hvernig sjónarhorn kynferðis skuli fléttað inn í alla stefnumótun, hvernig konum og körlum skal gert kleift að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf og um endurskilgreiningar á hefðbundnum kynhlutverkum. Þá verður leiðbeint um gerð jafnréttisáætlana og skoðað hvernig taka má tillit til jafnréttissjónarmiða við fjármálastjórn. Farið verður yfir ýmsar aðferðir við samþættingu og fá þátttakendur tækifæri til að beita þeim við úrlausn verkefna.

Nánari upplýsingar og skráning fer fram hér.