Jafnrétti í skólasstarfi

Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Jafnréttisstofa boða til ráðstefnu um jafnrétti í skólastarfi. Samkvæmt námskrá nær jafnrétti til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs. Þessa dagana er verið að auglýsa eftir áhugaverðu efni, hvort heldur í málstofur eða smiðjur.

Jafnrétti í skólastarfi

Árleg vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) verður haldin 1. apríl 2017 og verður hún að þessu sinni haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu. Þema ráðstefnunnar er jafnrétti í skólastarfi.

Samkvæmt gildandi menntastefnu er markmið jafnréttismenntunar að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag sem byggir á þessum gildum.

Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær samkvæmt námskrá til eftirfarandi þátta; kyns, kynhneigðar, kynvitundar, menningar, litarháttar, ætternis, þjóðernis, tungumáls, trúarbragða, lífsskoðana, fötlunar, stéttar, búsetu og aldurs.

Efni ráðstefnunnar er sniðið að leik-, grunn-,framhalds- og háskólum. 

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar verða:

  • Dr. Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
  • Raddir nemenda í umsjón Jafnréttisstofu

Auk aðalfyrirlestra verða málstofur og smiðjur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að jafnrétti í skólastarfi.  Einnig verður boðið upp á samræðulotu þar sem ráðstefnugestum gefst tækifæri á að ræða efni ráðstefnunnar. Hvert erindi verður 30 mínútur og innan þess tíma er gert ráð fyrir umræðum/fyrirspurnum. Smiðjur verða 60 mínútur. Hér með auglýsum við eftir erindum og smiðjum á málstofur frá leik-, grunn-, framhalds- og háskólakennurum, náms- og kennsluráðgjöfum, skólastjórnendum og öðrum áhugasömum aðilum um efni ráðstefnunnar.

Einkum er leitað eftir:

  • kynningu á árangursríkum þróunarverkefnum
  • kynningu á nýlegum íslenskum og erlendum rannsóknum
  • umfjöllun um árangursríkar aðferðir/leiðir í námi og kennslu
  • umfjöllun um strauma og stefnur
  •  

Einnig er í boði að kynna efni og veggspjöld sem tengjast þema ráðstefnunnar.

Frestur til að senda inn lýsingu á erindi að hámarki 200 orð er til 20. febrúar 2017.

Senda inn ágrip

Svör frá ráðstefnunefnd munu berast 28. febrúar 2017. Verði erindið samþykkt fellur niður ráðstefnugjald sem svarar einum málstofuflytjanda.

 

Nánari upplýsingar veitir Sólveig Zophoníasdóttir, 460 8564, netfang: sz@unak.is.

Einnig eru upplýsingar á heimasíðu MSHA: http://www.msha.is.