Jafnrétti kynjanna hvergi meira en á Íslandi

Í nýrri skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins kemur fram að jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Íslandi. Norðurlöndin skipa efstu þrjú sæti listans, þar sem Noregur er í öðru sæti og Finnland er í því þriðja. Í skýrslunni er lagt mat á jafnrétti kynja í stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði.
Aðferðafræði skýrslunnar mælir stöðu kvenna samanborið við stöðu karla innan landa, en gerir ekki samanburð á stöðu kvenna milli landa. Nokkuð er um að lönd færist til á listanum milli ára. Þannig hafa Bandaríkin náð stöðu meðal tuttugu efstu ríkja. Frakkland hefur hinsvegar fallið um mörg sæti og er nú í fertugasta og sjötta sæti en var árið áður í átjánda sæti. Af þeim ríkjum sem mæld hafa verið frá 2006, hafa 86% þeirra sýnt framför í jafnréttismálum en 14% ríkja fer aftur.

Ísland skipar efsta sæti þegar horft er til aðgengis að menntun og stjórnmálaþátttöku. Einnig skiptir atvinnuþátttaka kvenna miklu máli fyrir heildar niðurstöðu landsins. Sérstaklega er bent á að launamunur karla og kvenna á Íslandi er ennþá mjög mikill og jafnrétti hafi ekki verið náð þegar litið er til aðgengis kvenna að stjórnunarstöðum. Í skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins er sérstaklega fjallað um að á Íslandi hafa verið sett lög, sem taki gildi 2013, sem skylda fyrirtæki, með fleiri en 50 starfsmenn, til að tryggja jafnt hlutfall kynja í stjórnum.

Saadia Zahidi, einn höfunda skýrslunnar, segir mikilvægt að horfa til þess að þrátt fyrir að Norðurlöndin standi sig vel miðað við önnur ríki heims er ennþá langur vegur í að jafnrétti sé náð.

Skýrslan er aðgengileg á vefslóðinni:

http://www.weforum.org/pdf/gendergap/report2010.pdf