Jafnréttisáætlunum skilað í gegnum Þjónustugátt

Jafnréttisstofa hefur nú útbúið sérstakt eyðublað fyrir skil á jafnréttisáætlunum í Þjónustugátt stofnunarinnar, ekki er lengur tekið við jafnréttisáætlunum í tölvupósti. Þjónustugátt Jafnréttisstofu er rafrænt innskráningarsvæði sem auðveldar skil og gerir þau öruggari.

Fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri ber að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þar skal sérstaklega fjalla um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og hvernig atvinnurekendur og stjórnendur eiga að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað. Jafnréttisáætlanir skal endurskoða á þriggja ára fresti.

Jafnréttisáætlunum ber að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum og tryggja þannig virkt jafnréttisstarf á vinnumarkaði. Jafnréttisstofa metur hvort innkomnar jafnréttisáætlanir uppfylli kröfur laganna og samþykkir formlega eftir atvikum.

Hvorki er hægt að öðlast jafnlaunavottun né jafnlaunastaðfestingu án þess að samþykkt jafnréttisáætlun sé fyrir hendi.

Skil á jafnréttisáætlun