Jafnréttisfræðsla skilar árangri

Jafnréttisstofa, félags- og tryggingamálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Akureyrarbær, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Hafnarfjörður unnu síðasta skólaár að þróunarverkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttisfræðslu og jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum landsins.

Verkefnið var tvíþætt. Heimasíða www.jafnrettiiskolum.is þar sem nálgast má efni tengt jafnréttisfræðslu í skólum og jafnréttisverkefni sem unnin voru í fimm leikskólum og fimm grunnskólum. Verkefnin eru aðgengileg á heimasíðunni en auk þess eru kennarar tilbúnir til að koma í skólaheimsóknir og kynna verkefnin sín. Mat á verkefninu fór fram með margvíslegum hætti. Þátttökuskólarnir skiluðu lokaskýrslum þar sem mat var lagt á framkvæmd og framgang starfsins í skólunum. Ytra mat var í höndum Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA). Einnig mátu bæði faghópur verkefnisins og stýrihópur verkefnið hvor fyrir sig.

Lokaskýrsla verkefnisins og helstu niðurstöður voru kynntar nú nýlega. Í grunnskólunum telja kennararnir að verkefnið hafi skilað ákveðnum árangri hvað nemendahópinn varðar en kennarahópurinn hefði líka þurft fræðslu. Í leikskólunum var hins vegar almenn ánægja með hversu góð áhrif verkefnið hafði á umræðu starfsfólks um jafnréttismál. Leikskólakennararnir segjast t.d. núna vera meðvitaðri um mikilvægi sitt sem fyrirmyndir.

Niðurstöður RHA sýna að jafnréttisvitund grunnskólanemendanna hefur aukist á verkefnistímanum. Stelpurnar voru almennt jafnréttissinnaðri en strákarnir og viðhorf nemenda til jafnréttis voru breytileg eftir skólum. Samantekið má segja að verkefnið hafi í heild sinni styrkt viðhorf til jafnréttis í þeim grunnskólum sem það var unnið ef frá eru talin viðhorf til verkaskiptinga hjóna á heimili. Svipaðar niðurstöður komu líka fram þegar viðhorf starfsfólks leikskóla voru skoðuð.

Faghópurinn telur brýnt að menntamálaráðuneytið axli sína ábyrgð og sinni eftirlits- og ráðgjafarhlutverki sínu við jafnréttisfræðsluna. Gera þarf faglega úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum en vitað er að víða í skólakerfinu er mikið verk að vinna við mótun jafnréttisstefnu í samræmi við lög og opinber markmið. Skólayfirvöld sveitarfélaganna þurfa líka að sinna sínum skyldum og styðja skólana við jafnréttisfræðsluna.

Í skólaþróunarfræðum er gert ráð fyrir nokkrum árum í svona þróunarstarf, hér má því ekki láta staðar numið. Þátttökuskólarnir tíu þurfa áframhaldandi stuðning og ráðgjöf og bjóða þarf fleiri skólum og sveitarfélögum þátttöku í verkefninu.

Verulega skortir á kynjafræðiþekkingu kennara og úr því þarf að bæta. Kynjafræðin er nauðsynleg skyldunámsgrein í kennaramenntun og þarf að koma sterkar inn í endurmenntun kennara. Ef vinna á markvisst jafnréttisstarf í skólunum er brýnt að allt starfsfólk fái jafnréttisfræðslu. Öðruvísi verða jafnréttis- og kynjasjónarmið ekki fléttuð inn í skólastarfið.

Lokaskýrslu verkefnisins má nálgast hér