Jafnréttismál mikilvæg hjá þriðja hverjum frambjóðanda

Þrátt fyrir að jafnréttismál hafi ekki verið áberandi í stjórnlagaþingskosningunum voru þau mikilvægur hluti í stefnumörkun og málflutningi meira en þriðja hvers frambjóðanda. Þetta kemur fram í könnun sem Birgir Guðmundsson við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri gerði fyrir stjórnlagaþingskosningarnar með stuðningi frá Jafnréttisráði. Í skýrslu um rannsóknina segir að „málaflokkurinn skipti augljóslega umtalsverðu máli hjá það stórum hópi frambjóðenda að nær ómögulegt er annað en að hann verði tekinn upp á stjórnlagaþinginu sjálfu.“Mikill meirihluti allra frambjóðenda til stjórnlagaþingskosninganna í nóvember síðastliðnum , eða 75% töldu ástæðu til að setja í stjórnarskrá ákvæði sem hvetti til raunverulegs jafnréttis kynjanna . Kvenframbjóðendur voru í ríkari mæli þessarar skoðunar en karlframbjóðendur.

Þá voru 76% frambjóðenda þeirrar skoðunar samkvæmt könnuninni að setja þyrfti inn ákvæði í stjórnarskrá um að allir nytu „mannhelgi og verndar gegn ofbeldi bæði á opinberum vettvangi og í einkalífi“. Rætt var um að setja slíkt ákvæði inn í samhengi við kynbundið ofbeldi. Konur voru hlynntari slíku ákvæði en karlar.

Nokkru minni stuðningur eða 43% var meðal frambjóðenda við það að í stjórnarskrá yrði beinlínis kveðið á um að í kosningalögum væru fyrirmæli um hvernig sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla yrði náð á þingi. Drjúgur meirihluti kvenframbjóðenda var þó hlynntur slíku ákvæði á meðan tæpur helmingur karla var ósammála því.

Skýrslu um rannsóknina má finna hér