Jafnréttismánuður menntamálaráðuneytisins

Í menntamálaráðuneytinu hefur febrúarmánuður 2008 verið útnefndur jafnréttismánuður og hafa jafnréttismál verið í brennidepli undanfarnar vikur. Markmiðið er að vekja jákvæða athygli á jafnréttismálum og varpa ljósi á stöðu jafnréttismála í menntamálaráðuneytinu. Jafnréttisnefnd menntamálaráðuneytisins stendur fyrir jafnréttismánuðinum með góðum stuðningi ráðherra og ráðuneytisstjóra.
Starfsfólk menntamálaráðuneytis með Kristínu Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu í gönguferð sem nefnd var Leitin að jafnrétti.

Fjölbreytt dagskrá hefur verið skipulögð til þess að hvetja starfsfólk ráðuneytisins til umhugsunar um jafnréttismál. Sem dæmi má nefna að í hverju miðvikudagshádegi hefur starfsfólk ráðuneytisins safnast saman til að taka þátt í spennandi umræðu um jafnréttismál. Í fyrstu vikunni var launajafnrétti tekið fyrir og hlutfall kynja í störfum og nefndum skoðað. Í annarri viku var rætt um áhrif feðraorlofs á jafnrétti kynja og þróun jafnréttisumræðunnar í fræðilegu ljósi. Í þriðju viku var farið í gönguferð um miðbæ Reykjavíkur undir leiðsögn Kristínar Átgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Sá dagskrárliður bar heitið Leitin að jafnrétti. Fjórða og síðasta miðvikudaginn fjölmennir starfsfólk menntamálaráðuneytis ásamt boðsgestum úr öðrum ráðuneytum í Þjóðleikhúsið, þar sem rætt verður um birtingarform jafnréttis í leiklist og leikhússtarfi.

Einnig hefur fróðleiksmolum verið dreift á kaffistofum ráðuneytisins og starfsfólk ráðuneytisins hvatt til að ræða saman um jafnréttismál í föstudagskaffitímum. Starfsfólk tekur virkan þátt í atburðum og hefur meðal annars svarað spurningum sem verða til umfjöllunar á líflegri lokaathöfn síðasta dag mánaðarins:

Hvert er álit þitt á jafnréttisbaráttu dagsins í dag?
Hver eiga að vera næstu skref í jafnréttisbaráttunni?


Starfsfólk menntamálaráðuneytis ásamt Kristínu Ástgeirsdóttur við Bríetarbrekku.