Jafnréttissjóður boðar til málþings 24. október

Kyn og fræði: Ný þekking verður til er yfirskrift málþings sem Jafnréttissjóður boðar til kvennafrídaginn 24. október n.k. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra munu ávarpa þingið.
Jafnréttissjóður heyrir undir forsætisráðuneytið og er honum ætlað að efla kynjarannsóknir. Undanfarin ár hefur sjóðurinn veitt fé til ýmissa rannsókna og verða nokkrar þeirra kynntar á málþinginu.

Ásta Jóhannsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands, mun fjalla um áhrif kyngervis og stéttar á mótun sjálfsmyndar. Prófessor Guðný Björk Eydal mun fjalla um tengsl fæðingarorlofs og fjölskyldulífs. Hildur Fjóla Antonsdóttir, rannsakandi hjá EDDU öndvegissetri, fjallar um rannsóknir á málsmeðferðum nauðgunarmála og Kári Kristinsson, lektor við viðskiptafræðideild HÍ, mun fjalla um kynbundinn launamun. Á málþinginu tilkynnir formaður Jafnréttissjóðs, Rósa G. Erlingsdóttir, hverjir hljóta rannsóknarstyrki árið 2013.

Dagskrána má nálgast hér