Jafnréttisstarf í friðaruppbyggingu: Framlag friðar- og átakafræða

Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 21. september, kl. 12.00-12.50, mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um jafnrétti, konur, frið og öryggi og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Allir velkomnir.

Með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, sem var samþykkt árið 2000, viðurkenndi Öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar. Ályktunin hefur haft áhrif á áherslur og starf alþjóðastofnana sem vinna að friðaruppbyggingu, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um skyldur þeirra til að vinna að jafnrétti og taka mið af kynjasjónarmiðum.

Friðar- og átakafræði fást við að greina hættu á átökum og vekja athygli á ástæðum þeirra. Meðal markmiða fræðasviðsins er vera leiðbeinandi fyrir þá sem fara með framkvæmd uppbyggingarstarfs á átakasvæðum. Í erindinu fjallar Tryggvi um vandamál og álitamál sem komið hafa upp vegna innleiðingar markmiða í fyrrgreindri ályktun. Umfjöllunin tekur mið af raunverulegum verkefnum í friðargæslu með sérstakri áherslu á áskoranir sem felast í jafnréttisstarfi í umhverfi mismunandi andstöðu.

Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008.

Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.