Jafnréttisstofa birtir skýrslu um umönnunarbil og þjónustu sveitarfélaga

Umönnunarbil – tímabilið milli fæðingarorlofs og leikskóla – hefur lengi verið áskorun fyrir fjölskyldur. Ný skýrsla Jafnréttisstofu sýnir að núverandi fyrirkomulag endurspeglar áhrif kynjakerfis á fjölskyldu- og atvinnulíf og getur haft neikvæð áhrif á jafnrétti.

Sveitarfélög bera ríkar skyldur í jafnréttismálum og þurfa að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun, fjármagnsráðstöfunum og ákvörðunum. Könnun sem framkvæmd var meðal sveitarfélaga í júní 2025 greindi heimgreiðslur, leikskólaumgjörð, dagforeldra og gjaldskrár.

Niðurstöður sýna að án samþættingar jafnréttissjónarmiða í ákvarðanir er hætta á að ómeðvitaðar breytingar festi kynjahlutverk í sessi og auki kynjabil í tekjum og tækifærum.

Helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Nauðsynlegt er að móta heildstæða stefnu sem byggir á traustri fjármögnun, gögnum og markvissri greiningu.
  • Þjónusta og úrræði þurfa að vera samræmd án þess að missa sjónar á fjölbreytileika sveitarfélaga.
  • Áhersla á jafnréttismat, kyngreinda tölfræði og meðvitaða nálgun gegn ómeðvitaðri hlutdrægni er lykilatriði.
  • Efla þarf mannauð í umönnunarstéttum og byggja upp sveigjanlegt kerfi sem þróast í takt við þarfir barna og fjölskyldna.

Með slíkri framtíðarsýn verður unnt að brúa umönnunarbil, efla jöfnuð og tryggja öllum börnum og foreldrum jöfn tækifæri.

Lesa skýrsluna í heild sinni hér.