Jafnréttisstofa býður upp á fjarnámskeið

Jafnréttisstofa í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri býður nú upp á námskeið um ýmsa fleti jafnréttisstarfs í fjarnámi. Slíkt fyrirkomulag hentar ýmsum, sér í lagi vinnustöðum sem eru með vaktavinnufyrirkomulag en einnig vinnustöðum þar sem fólk er mikið á ferðinni. Í febrúar sl. tóku starfsmenn Lögreglustjórans á Austurlandi þátt í fjarnámskeiði um hlutverk og skyldur opinberra aðila með tilliti til jafnréttislaga og laga um jafna meðferð og einnig um aðferðafræði kynjasamþættingar. Fjarnámskeiðsformið  gerði starfsmönnum embættisins kleift að nálgast fræðsluefnið á mismunandi tímum en lögreglustarfið er þess eðlis að útköll og eftirspurn eftir þjónustu hindrar oft námskeiðahald.

Jafnréttisstofa hvetur fyrirtæki og stofnanir til að hafa samband ef áhugi er á frekari upplýsingum um námskeið sem í boði eru.