Jafnréttisstofa býður upp á jafnréttisfræðslu í skólum

Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Jafnréttisstofu heimsótt grunn- og framhaldsskóla og frætt nemendur um kynjajafnrétti, helstu hlutverk Jafnréttisstofu og staðalmyndir kynjanna í fjölmiðlum og almennt í okkar samfélagi.
Boðið hefur verið upp á fræðslu fyrir nemendur í öllum árgöngum grunnskólans að beiðni nokkurra sveitarfélaga en framhaldsskólarnir hafa leitað eftir fræðslu í tengslum við ákveðna námsáfanga og þemadaga.Jafnréttisstofa hefur verið í samstarfi við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ hvað varðar jafnréttisfræðslu í skólum og sér í lagi fræðslu fyrir stjórnendur og kennara á grunnskólastiginu en samkvæmt jafnréttislögum ber skólum á öllum skólastigum að sinna jafnréttisfræðslu og nú þegar jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar er mjög mikilvægt að kennarar hljóti fræðslu um jafnréttismál.

Í vetur hefur Jafnréttisstofa í samvinnu við Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar unnið að sérstöku jafnréttisfræðsluverkefni í grunnskólum Akureyrarbæjar. Verkefnið felst í stuðningi við skólana við að vinna gegn neikvæðum staðalmyndum kynjanna og er ætlað að tengja saman jafnréttisstefnu og forvarnastefnu bæjarins með áherslu á fræðslu fyrir ungt fólk.

Jafnréttisstofa býður skólum einnig upp á aðstoð við gerð jafnréttisáætlana. Flestir framhaldsskólar landsins og grunnskólar á Akureyri hafa farið að jafnréttislögum og sett sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir sem nálgast má á heimasíðum skólanna.
Á þessu ári mun Jafnréttisstofa kalla eftir jafnréttisáætlunum frá öllum leik- og grunnskólum landsins og mun skólunum bjóðast stuðningur við að setja sér aðgerðabundnar áætlanir.  

Stofan er ennfremur að vinna að útgáfu fræðsluefnis sem unnið var í tengslum við þróunarverkefnið: Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum en nú stendur til að gefa þetta efni út í bókarformi og á netinu næstkomandi haust.